Sport

Federer úr leik á Wimbledon

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jo-Wilfried Tsonga fagnar sigrinum í dag.
Jo-Wilfried Tsonga fagnar sigrinum í dag. Nordic Photos / AFP
Roger Federer, sexfaldur Wimbledon-meistari í tennis, er úr leik á mótinu í ár eftir að hafa tapað fyrir Jo-Wilfried Tsonga í fjórðungsúrslitum í dag.

Federer vann reyndar fyrstu tvö settin, 6-3 og 7-6, og var því á góðri leið með að tryggja sér sæti í undanúrslitum keppninnar.

Tsonga beit hins vegar frá sér og gerði sér lítið fyrir og vann næstu þrjú settin, öll 6-4. Úrslitin eru vissulega óvænt en Federer, sem hefur unnið sextán stórmót á ferlinum, hefur ekki fagnað sigri á stórmóti síðan í janúar í fyrra.

Tsonga er 26 ára gamall og er í nítjánda sæti heimslistans. Hæst hefur hann komist í sjötta sætið en þetta er í annað sinn sem hann kemst í undanúrslit á stórmóti. Hann keppti til úrslita á opna ástralska meistaramótinu áriði 2008 en tapaði þá fyrir Novak Djokovic.

Hann fær nú tækifæri til að hefna þeirra ófara því hann mætir einmitt téðum Djokovic í undanúrslitum Wimbledon-mótsins í ár. Djokovic tryggði sér sæti í undanúrslitum fyrr í dadg með því að vinna Bernard Tomic frá Ástralíu, 6-2, 3-6, 6-4 og 7-5.

Tomic þessi er einungis átján ára gamall og hefur slegið í gegn hjá áhorfendum á mótinu í ár.

Síðari tvær viðureignirnar í fjórðungsúrslitum eru nú hafnar. Núverandi meistari, Rafael Nadal, mætir Mardy Fish frá Bandaríkjunum og heimamaðurinn Andy Murrey etur kappi við Feliciano Lopez frá Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×