Fótbolti

Stjörnulaust Barcelona-lið í síðasta deildarleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi skorar ekki meira í spænsku deildinni í ár.
Lionel Messi skorar ekki meira í spænsku deildinni í ár. Mynd/AP
Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, ætlar ekki að taka neina áhættu með stjörnuleikmenn sína fyrir úrslitaleik Meistaradeildarinnar á móti Manchester United eftir rúma viku og hefur því ákveðið að hvíla sjö stjörnuleikmenn í síðasta deildarleiknum á morgun.

Lionel Messi verður hvíldur í leiknum sem er á móti Malaga en aðrir sem verða í stúkunni eru þeir David Villa, Xavi Hernandez, Iniesta, Gerard Pique, Carles Puyol og markvörðurinn Victor Valdes.

Barcelona hefur þegar tryggt sér þriðja spænska meistaratitilinn í röð og Messi hefur fyrir löngu tapað baráttunni um markakóngstitilinn á móti Cristiano Ronaldo hjá Real Madrid. Messi hefur engu að síður skorað 52 mörk í 54 leikjum í öllum keppnum á leiktíðinni en Ronaldo hefur gott forskot í deildinni.

Það er líka búist við því að Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hvíli sína lykilmenn í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn en úrslitaleikur Meistaradeildarinnar er síðan á Wembley í London 28.maí næstkomandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×