Fótbolti

Afdrífarík spurning blaðamanns um Giggs - Ferguson setti hann í bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Mynd/AP
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hefur sett blaðamann Associated Press í bann fyrir að spyrja hann út í Ryan Giggs á blaðamannafundi í dag en hann var haldin fyrir komandi úrslitaleik Meistaradeildarinnar sem fer fram á laugardaginn.

Ryan Giggs stendur í stórræðum utan vallar en hann fékk fyrr í vetur í gegn umfjöllunarbann um einkalíf sitt vegna meints framhjáhalds. Skoskt dagblað birti um helgina mynd af Giggs, reyndar með svartan borða yfir augun og án þess að nefna hann á nafn.

Í kjölfarið fékk málið mikla umræðu á Twitter-samskiptasíðunni sem gerði þetta að enn stærra máli og um leið vissu allir að maðurinn sem um ræðir væri Ryan Giggs. Giggs mætti ekki á opna æfingu United-liðsins í morgun.

Blaðamaðurinn Rob Harris spurði Ferguson saklausrar spurningar um mikilvægi Ryan Giggs í leiknum á móti Barcelona. „Reyndasti leikmaðurinn í liðinu er augljóslega Ryan Giggs. Hversu mikilvægur er hann á laugardaginn?," spurði Harris.

Ferguson svaraði kuldalega: „Allir leikmennirnir eru mikilvægir, hver einn og einasti."

Sky News náði síðan upptöku af því þegar Ferguson hvíslaði í eyra fjölmiðlafulltrúans og spurðist fyrir um manninn sem spurði um Giggs og hvort hann kæmi á blaðamannafundinn á föstudaginn.

Ferguson heyrðist síðan segja við fjölmiðlafulltrúann. „Allt í lagi, við neglum hann þá. Við setjum hann í bann á föstudaginn," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×