Fótbolti

Úrslitaleikurinn á Wembley: Messi og Chicharito markahæstir

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Grafík / Visir.is
Barcelona frá Spáni og Manchester United frá Englandi mætast í úrslitum Meistaradeildar Evrópu á Wembley leikvanginum á laugardaginn. Argentínumaðurinn Lionel Messi er markahæsti leikmaður Meistaradeildarinnar með 11 mörk og Barcelonamaðurinn verður án efa í stóru hlutverki gegn Man Utd. Markahæsti leikmaður enska liðsins í Meistaradeildinni er Javier Hernández eða Chicharito með 4 mörk.

Það er óvíst hvort Chicharito verði í byrjunarliði Man Utd en hann hefur farið á kostum á sínu fyrsta tímabili. Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Man Utd hefur úr mörgum framherjum að velja og erfitt að spá fyrir um liðsvalið hjá hinum þaulreynda knattspyrnustjóra.

Lionel Messi hefur átt frábært tímabil en hann var valinn knattspyrnumaður ársins hjá FIFA fyrir árið 2010. Chicharito skoraði sitt fyrsta mark fyrir Man Utd aðeins 18 mínútum eftir að hann kom inná sem varamaður á 63. mín í leik gegn bandarísku úrvalsliði í lok júlí 2010. Eins og sjá má í tölfræðinni hér fyrir ofan hefur flest gengið upp hjá hinum unga framherja á fyrsta tímabili hans með Man Utd.

Þetta er í annað sinn á þremur árum sem þessi lið mætast í úrslitum keppninnar en bæði lið hafa landað þremur Evrópumeistaratitlum. Barcelona hafði betur gegn Real Madrid í undanúrslitum keppninnar 3-1 samanlagt og Man Utd lagði Schalke frá Þýskalandi 6-1 samanlagt.

Man Utd hefur leikið til úrslita í þessari keppni þrjú skipti á síðustu fjórum árum. Barcelona vann sinn fyrsta Evrópumeistaratitil vorið 1992 en þá fór úrslitaleikurinn fram á Wembley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×