Fótbolti

Sir Alex: Það verður ekki auðvelt að velja liðið á Wembley

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nani er ekki öruggur með sæti í liðinu og reynir hér að sýna sig fyrir Alex Ferguson.
Nani er ekki öruggur með sæti í liðinu og reynir hér að sýna sig fyrir Alex Ferguson. Mynd/AP
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, segir að sínir menn séu tilbúnir fyrir úrslitaleik Meistaradeildarinnar á móti Barcelona á Wembley á laugardaginn en hans sjálfs bíði hinsvegar erfitt verkefni að velja þá ellefu sem fá að byrja leikinn.

Ferguson hvíldi nokkra lykilmenn sína í síðasta deildarleiknum á móti Blackpool á sunnudaginn og það er öruggt að Wayne Rooney og Rio Ferdinand koma aftur inn í liðið fyrir úrslitaleikinn.

Ferguson mun þó líklega gera fleiri breytingar á liði sínu sem þarf að getað stoppað Barcelona-lestina ætli United sér að vinna Meistaradeildina í þriðja sinn undir stjórn Sir Alex.

„Það verður ekki auðvelt að velja liðið því maður er þarna að glíma við mannlega þáttinn í fótboltanum. Allir leikmennirnir hafa lagt svo mikið á sig á þessu tímabili og það er liðsheildin sem er búin að koma okkur í þessa stöðu. Þetta verður því ekki auðvelt val," sagði Ferguson.

„Því miður er það einn maður sem þarf að segja þeim að þeir fái ekki að byrja leikinn og það er ég. Það er ekki auðvelt starf en svona er þetta bara," sagði Ferguson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×