Fótbolti

Ungverji dæmir úrslitaleik Meistaradeildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viktor Kassai ræðir við Wayne Rooney í landsleik Englendinga og Búlgara í september.
Viktor Kassai ræðir við Wayne Rooney í landsleik Englendinga og Búlgara í september. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ungverjinn Viktor Kassai mun dæma úrslitaleik Meistaradeildarinnar á milli Barcelona og Manchester United en leikurinn fer fram á Wembley á laugardaginn og eftirlitsmaður UEFA er Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.

Kassai er 35 ára gamall og hefur dæmt fimm leiki í Meistaradeildinni á þessu tímabili. Hann hefur dæmt yfir 60 leiki á vegum UEFA á ferlinum en hann hefur verið alþjóðadómari í áratug. Kassai dæmdi á HM í Suður-Afríku á síðasta ári.

Kassai dæmdi meðal annars leik Inter Milan og Bayern Munchen í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar í vetur sem og leik Manchester United og Valencia í riðlakeppninni. United vann þann leik 1-0 en spilað var á Spáni.

Ungverjar eiga alla fimm dómara leiksins, Gabor Eros og Gyorgy Ring verða aðstoðardómarar, Mihaly Fabian og Tamas Bognar verða á endalínunni og Robert Kispal er varadómari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×