Fótbolti

Evra: Var kannski of sigurviss fyrir tveimur árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrice Evra í baráttu við Samuel Eto'o í úrslitaleiknum fyrir tveimur árum.
Patrice Evra í baráttu við Samuel Eto'o í úrslitaleiknum fyrir tveimur árum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Patrice Evra, franski bakvörðurinn hjá  Manchester United, segir að United-liðið hafi verið of sigurvisst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á móti Barcelona fyrir tveimur árum. Liðin mætast aftur í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á Wembley á laugardaginn.

Barcelona vann úrslitaleikinn árið 2009 2-0 en spilað var í Róm. Samuel Eto'o skoraði fyrra markið á 10. mínútu og Lionel Messi innsiglaði síðan sigurinn um miðjan seinni hálfleik.

„Ef ég segi alveg eins og er þá var ég sigurviss á Ítalíu. Kannski var ég of öruggur með okkur en ég var viss um að við myndum vinna leikinn," sagði Patrice Evra

„Það segja allir að Barcelona sé með besta liðið í heimi í dag og ég virðiþað. Fyrir tveimur árum sögðu hinsvegar allir að við myndum vinna Barcelona auðveldlega í Róm. Kannski snúast hlutirnir við í ár," sagði Evra.

„Við höfum fengið mikla gagnrýni á þessu tímabili og allir voru að tala um að þetta væri endirinn hjá Manchester United stórveldinu. Við unnum samt deildina og þá fóru menn að tala um að við spiluðum ekki vel. Við unnum deildina með níu stiga mun sem er mjög gott. Ef við förum að spila vel líka þá ættum við að vinna deildina með 20 stigum," sagði Evra í kaldhæðni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×