Fótbolti

Calderon líkti Mourinho við Hitler

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ramon Calderon.
Ramon Calderon. Nordic Photos / AFP
Ramon Calderon, fyrrverandi forseti Real Madrid, gerðist svo kræfur að líkja knattspyrnustjóranum Jose Mourinho við sjálfan Adolf Hitler.

Calderon var hjá Real frá 2006 til 2009 en hann var að tjá sig um ákvörðun félagsins að reka framkvæmdarstjórann Jorge Valdano úr starfi.

Valdano og Mourinho voru ósáttir og því ákvað núverandi forseti, Florentino Perez, að reka Valdano til að styrkja stöðu Mourinho innan félagsins og halda honum góðum.

Þetta var Calderon ósáttur við og sagði vinsældir Mourinho ekki endilega af hinu góða.

„Maður getur verið dýrkaður og dáður af milljónum stuðningsmanna - en Hitler var líka hampað af milljónum manna áður en hann féll af sínum stalli,“ sagði Calderon í útvarpsviðtali í dag.

„Í raun vorkenni ég Madrid og Florentino. Ég fékk það á tilfinninguna í gær hann væri eins og ólærður nemandi á leið í próf,“ sagði Calderon og átti þá við framkomu Florentino á blaðamannafundinum þegar uppsögn Valdano var tilkynnt.

„Þeir ræddu svo mikið um erfiðleika og vandamál innan félagsins að það hljómaði eins og það væri verið að ræða um stinningarvandamál. Þetta var sorglegt - eins og lík sem var að leita sér að líkkistu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×