Fótbolti

Ronaldo: Ég er ekki með markakóngstitilinn á heilanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Mynd/Nordic Photos/Getty
Cristiano Ronaldo, leikmaður Real Madrid, segir ekki vera með markakóngstitilinn á Spáni á heilanum en Portúgalinn hefur skorað sjö mörk í síðustu tveimur leikjum sínum og er nú kominn með fimm marka forskot á Lionel Messi hjá Barcelona.

Ronaldo vantar nú aðeins tvö mörk til þess að jafna markamet Hugo Sanchez þegar tveir leikir eru eftir en mexíkóski leikmaðurinn skoraði 38 mörk fyrir Real Madrid tímabilið 1989-1990.

„Það er rétt er að ég er í baráttu um að verða markakóngur en ég er ekki með markakóngstitilinn eða metið hans Hugo Sanchez á heilanum," sagði Cristiano Ronaldo eftir leikinn í gær.

„Liðið lék vel í þessum leik og okkar markmið er að leggja okkur fram og vinna þá leiki sem við eigum eftir. Þjálfarinn okkar bað um það og það er það sem við erum að gera," sagði Ronaldo en það var áberandi í þessum leik að félagar hans í Real Madrid liðinu voru mjög uppteknir að reyna að spila hann uppi.

Ronaldo var að missa Lionel Messi langt fram úr sér þegar hann náði aðeins að skora tvö mörk í sjö deildarleikjum frá 16. janúar til 26. febrúar en hann hefur heldur betur bætt úr því með tólf mörkum í síðustu sjö leikjum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×