Sport

Serena keppir ekki á opna franska

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Tennisdrottningin Serena Williams hefur staðfest að hún muni ekki spila á opna franska meistaramótinu í tennis vegna meiðsla.

Williams hefur verið frá síðustu tíu mánuðina, bæði vegna meiðsla á fæti og þá fékk hún blóðtappa í lungun. Hún þurfti að fara í tvær aðgerðir vegna meiðslanna.

Hún er 29 ára gömul og hefur heitið því að snúa aftur til keppni þegar hún nær fullri heilsu til.

„Ég vil þakka ykkur öllum fyrir stuðninginn. Ég mun sakna Parísar en er að vinna að því hörðum höndum að gera endurkomu mína þangað ógleymanlega,“ skrifaði hún á Twitter-síðu sína.

Systir hennar, Venus, á einnig við meiðsli að stríða og er óvíst hvort hún geti keppt á opna franska sem hefst þann 22. maí næstkomandi.

Hin danska Caroline Wozniacki er í efsta sæti heimslistans um þessar mundir en Kim Clijsters frá Belgíu er í öðru sæti. Serena er dottin niður í sautjánda sæti en Venus það nítjánda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×