Körfubolti

Hjartnæm þakkaræða Derrick Rose: Þetta er allt mömmu að þakka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Derrick Rose með verðlaunin sín.
Derrick Rose með verðlaunin sín. Mynd/AP
Derrick Rose hjá Chicago Bulls tók við verðlaunum í gær sem besti leikmaðurinn í NBA-deildinni og það fór ekkert framhjá neinum að þessum hlédræga leikmanni leið ekkert alltof vel upp á sviðinu.

Það var annar bragur á þessari afhendingu en þeirri hjá LeBron James sem setti á svið mikla sýningu þegar hann valinn bestur undanfarin tvö tímabil. Rose vildi bara komast sem fyrst inn á völlinn og láta verkin tala sem og hann gerði síðan seinna um kvöldið í góðum sigri á Atlanta Hawks.

Þakkaræða Rose var samt mjög hjartnæm og þar þakkaði hann mömmum sinni sérstaklega fyrir hversu langt hann væri kominn í körfuboltanum. Hann sagði að hún bæri ábyrgð á hans stóra hjarta.

„Þetta er allt mömmu að þakka. Ástæðan fyrir því að ég spila eins og ég spila er að ég hugsa alltaf um mömmu mína og það sem hún þurfti að gera til þess að passa upp á mig. Ég elska þig og ég met mikils að þú sért í mínu lífi," sagði Derrick Rose meðal annars í þessarri vasaklúta þakkaræðu sinni en mamma hans Brenda Rose, var að sjálfsögðu mætt á staðinn.

Rose er aðeins 22 ára gamall og yngsti leikmaðurinn í sögunni til þess að vera valinn bestur. Hann var með 25 stig og 7.7 stoðsendingar að meðaltali á tímabilinu og hjálpaði Chicago Bulls að ná besta árangri allra liða í deildarkeppninni. Derrick Rose kemst líka í hóp með Michael Jordan en þeir eru einu leikmennirnir í sögu Chicago Bulls sem hafa fengið þessi virtu verðlaun.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×