Körfubolti

Odom valinn besti varamaðurinn í NBA

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lamar Odom með félögum sínum í LA Lakers.
Lamar Odom með félögum sínum í LA Lakers. Mynd/AP
Lamar Odom, leikmaður LA LAkers, var í nótt útnefndur besti varamaðurinn í NBA-deildinni í körfubolta eða besti sjötti leikmaðurinn eins og verðlaunin eru kölluð.

Odom varð þar með fyrsti leikmaðurinn í sögu Lakers til að hljóta þessa útnefningu en hann hefur átt frábært tímabil.

Hann hefur aldrei skotið betur á ferlinum en meðalnýtingin hans á tímabilinu er 53 prósent. Hann hefur verið varamaður í 47 leikjum á tímabilinu en í byrjunarliðinu í 35.

Hann hefur að meðaltali skorað 14,4 stig, tekið 8,7 fráköst og gefið þrjár stoðsendingar.

Aðeins þeir sem hafa oftar verið varamenn en í byrjunarliðinu á viðkomandi tímabili koma til greina í kjörinu.

Odom kom til Lakers árið 2004, þá í skiptum fyrir Shaquille O'Neal sem fór til Miami Heat. Hann er nú á sínu tólfta tímabili í deildinni.

„Ég reyni fyrst og fremst að sinna því hlutverki sem ég þarf að gera hjá mínu liði. Það er nú að spila eins vel og ég get hvern einasta leik og að breyta leikjum þegar ég kem við sögu,“ sagði Odom.

Lakers tapaði óvænt fyrir New Orleans í fyrstu viðureign liðanna í úrslitakeppninni en liðin mætast aftur í kvöld í Los Angeles.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×