Fótbolti

Sergio Ramos getur andað léttar - það var til varabikar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rútan sem eyðilaggði spænska konungsbikarinn eftir stoðsendingu frá Sergio Ramos.
Rútan sem eyðilaggði spænska konungsbikarinn eftir stoðsendingu frá Sergio Ramos. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sergio Ramos, varnarmaður Real Madrid, komst í heimsfréttirnar þegar hann missti spænska Konungsbikarinn fyrir rútuna sem ók með liðið í sigurhátíðinni eftir að félagið varð spænskur bikarmeistari á miðvikudagskvöldið.

Ökumaður rútunnar sá ekki bikarinn, keyrði yfir hann og eyðilagði hann. Sem betur fer fyrir Ramos og Real Madrid menn þá var til vara-bikar og sá bikar er nú kominn í hendur bikarmeistaranna.

Sergio Ramos sló á létta strengi þegar hann tjáði sig um atvikið á twitter-síðu sinni. „Það var misskilingur að ég hafi misst bikarinn. Ég missti hann ekki heldur brá honum svo mikið við að sjá alla þessa æstu stuðningsmenn Real," skrifaði Sergio Ramos í gríni.

Federico Alegre, er eigandi fyrirtækisins sem framleiðir bikarinn og hann sagði að þetta væri ekkert vandamál.

„Frá því klukkan 5.30 í morgun þá var Real Madrid búið að fá bikarinn aftur í fullkomnu ástandi til þess að sýna stuðningsmönnum sínum. Það er sem betur fer alltaf til varabikar," sagði Alegre.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×