Menning

Gyrðir: Frelsið mikilvægast listamönnum

Símon Örn Birgisson skrifar
Gyrðir Elíasson hlýtur bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í ár fyrir bókina Milli Trjánna en tilkynnt var um verðlaunin í Osló í morgun. Gyrðir mun taka á móti verðlaununum á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í nóvember og segir þetta stóran dag í sínu lífi.

En hvað er það við bókina Milli trjánna sem hlýtur bókmenntaverðlaunin í ár?

„Ég geri mér varla grein fyrir því. Finnst hún ekki frábrugðin öðrum smásagnasöfnum mínum eða öðrum bókum þannig. Það er í raun erfitt fyrir mig að segja til um það."

Komu verðlaunin þér á óvart?

„Já, já. Ég segi það bara eins og það," segir Gyrðir sem hafði ekki fyrir því að fara út í dag þegar tilkynnt var um verðlaunahafann. "Ég var bara að hugsa um allt aðra hluti og búinn að afskrifa þetta alveg."

Hverjar eru skoðanir þínar á verðlaunum í listum?

„Ég held nú að höfundar hafi tvíbentar skoðanir á svona verðlaunum. Þau hafa plúsa og mínusa. Þau koma sér vel og allt það. En svo getur þetta líka tekið tíma frá því að skrifa. Ég allavega vona að þetta muni ekki breyta mikið daglegri rútínu minni þegar fram líða stundir," segir Gyrðir.

Gyrðir segir sinn helsta gagnrýnanda vera hann sjálfur.

„Fyrst og síðast er það maður sjálfur sem tekur ákvörðun um hvað fer frá manni. En ég hef alltaf haft fullt frelsi frá mínum útgefendum um hvað ég vinn og tek mér fyrir hendur og hvernig ég skrifa."

Heldurðu að rithöfundar í dag hafi nægilegt frelsi?

„Það hefur verið erfitt fjárhagslega fyrir menn að helga sig listum á Íslandi. Og það verður sífellt erfiðara. Maður veit varla hvernig framhaldið verður á slíku ef ástandið heldur áfram að vera eins og það er í dag. En það er mjög mikilvægt að það sé hópur manna á landinu sem hefur tækifæri til að sinna list sinni og ég held að menn myndu sakna þess ef allar listir dyttu út þá myndu menn sjá hvers þeir hafa misst við."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.