Handbolti

Alexander: Mæti brjálaður á sunnudag

Henry Birgir Gunnarsson í Halle skrifar
Járnmaðurinn Alexander Petersson var þreyttur eftir æfingu íslenska landsliðsins í Bielefeld í kvöld. Skal engan undra þar sem strákarnir þurftu að leggjast í langt ferðalag í dag og fóru síðan beint á æfingu.

"Þetta var langur dagur í dag og það eru allir þreyttir. Við sjáum til á morgun hvernig æfingin gengur. Ég held samt að allir séu tilbúnir," sagði Alexander en strákarnir tóku hraustlega á því í kvöld þó svo þeir hafi verið þreyttir.

Íslenska liðsins bíður afar erfiður leikur á sunnudag gegn Þjóðverjum í Gerry Weber-höllinni þar sem 11 þusund manns munu hvetja Þjóðverja til dáða.

"Þetta verður mjög erfitt og svo er Holger Glandorf að koma aftur í hópinn hjá þeim en hann er mjög erfiður. Þetta verður skemmtilegur leikur og við munum gefa allt. Þetta er leikur sem Þjóðverjar verða að vinna og við líka."

Alexander kveinkaði sér aðeins í öxlinni eftir æfingu en aðallega var hann þreyttur.

"Ég er þreyttur og var líka þreyttur í gær. Ég verð rólegur á morgun og brjálaður á sunnudag," sagði Alexander.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×