Fótbolti

Real Mardid létti af Lyon-álögunum og komst loksins áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Real Madrid vann loksins sigur á franska liðinu Lyon og tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í fyrsta sinn í sjö ár með því að vinna Lyon 3-0 í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitunum á Santiago Bernabeu í kvöld.

Brasilíumaðurinn Marcelo kom mikið við sögu í leiknum í kvöld en hann skoraði fyrsta markið eftir flottan dans í gegnum Lyon-vörnina og lagði síðan upp annað markið fyrir Karim Benzema, fyrrum leikmann Lyon. Benzema skoraði í báðum leikjunum á móti sínum gömlu félögum.

Real Madrid var ógnandi frá fyrstu mínútu á móti Lyon en þurfti að bíða fram á 36. mínútu eftir fyrsta markinu sem var þó ekki af slakari gerðinni. Markið kom á versta tíma fyrir Lyon-liðið sem var þá farið komast betur inn í leikinn.

Marcelo hóf sóknina gaf á Cristiano Ronaldo og fékk hann aftur áður en hann lék á tvo varnarmenn og skoraði framhjá Hugo Lloris í marki Lyon.

Karim Benzema var tvígang nálægt því að koma Real í 2-0 í lok fyrri hálfleiks, fyrst varði Hugo Lloris frá honum eftir sendingu Marcelo og svo skoraði hann skallamark sem var dæmt af vegna rangstöðu.

Karim Benzema tókst hinsvegar að skora á 66. mínútu eftir að hafa fengið langa sendingu inn fyrir vörnina frá Marcelo. Skömmu seinna gat Benzema bætt við öðru marki en Hugo Lloris varði boltann yfir.

Argentínumaðurinn Ángel Di María afgeiddi síðan leikinn endanlega með þriðja markinu á 76. mínútu eftir að hafa fengið skallasendingu frá Mesut Özil inn fyrir vörnina.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×