Fótbolti

Claudio Ranieri: Chelsea getur unnið Meistaradeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Lampard og Didier Drogba.
Frank Lampard og Didier Drogba. Mynd/AP
Claudio Ranieri, fyrrum þjálfari Roma og Chelsea, hefur trú á því að hans gömlu lærisveinar í Chelsea eigi góða möguleika á því að vinna Meistaradeildina í fyrsta sinn í maí. Úrslitaleikurinn fer einmitt fram á Wembley-leikvanginum í Lundúnum en Lundúnalið hefur aldrei unnið Evrópukeppni meistaraliða.

Chelsea vann 2-0 sigur í fyrri leiknum á móti danska liðinu FC Kaupamannahöfn í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar og er því komið með annan fótinn í átta liða úrslitin.

„Það kemur mér ekki mikið á óvart að Chelsea hafi verið í vandræðum í ensku úrvalsdeildinni. Fótbolti er engin vísindi og sama lið getur bæði spilað vel og spilað illa," sagði Claudio Ranieri.

„Ég held að Chelsea geti unnið Meistaradeildina því félagið er með prýðilegan hóp og frábæra leikmenn," sagði Ranieri. Hann telur að Fernando Torres og Didier Drogba eigi aðeins í land að ná sínu besta leikformi.

„Kannski er Torres ekki hundrað prósent og það sama má segja um Drogba. Ég tel að þeir geti báðir spilað betur á lokakafla tímabilsins," sagði hinn 59 ára gamli Ranieri sem var rekinn frá Roma á dögunum en hann var stjóri Chelsea frá 2000 til 2004.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×