Fótbolti

Litlar líkur á að Bale verði með í seinni leiknum við AC Milan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Bale.
Gareth Bale. Mynd/Nordic Photos/Getty
Tottenham-menn eru nánast búnir að gefa upp alla von að Gareth Bale verði með í seinni leiknum á móti ítalska liðinu AC Milan í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Bale hefur ekki spilað síðan að hann fór meiddur af velli eftir níu mínútur í leik á móti Newcastle United í janúar.

Hinn 21 árs gamli Bale missir örugglega af leiknum á móti Wolves í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn og stjórinn Harry Redknapp hefur gefið upp alla von að hann verði með á miðvikudaginn kemur. Tottenham vann 1-0 sigur í fyrri leiknum á San Siro þrátt fyrir að leika án þessa frábæra leikmanns.

Bale átti í fyrstu að vera bara frá í tvær vikur en það hefur gengið illa hjá læknaliði Spurs að koma honum á fætur. Hann reyndi að hlaupa með liðinu í æfingaferð til Dúbæ en fann til óþæginda og varð að hætta. Bale er að glíma við erfið bakmeiðsli sem ætla að spilla fyrir annars frábæru tímabili hjá honum.

Það er þó ekki bara slæmar fréttir frá Tottenham því Hollendingurinn Rafael van der Vaart er búinn að ná sér af sínum meiðslum og verður með á móti Úlfunum. Hann hafði misst af tveimur leikjum í ensku úrvalsdeildinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×