Fótbolti

Messi bjargaði Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Messi í leiknum í kvöld.
Messi í leiknum í kvöld. Nordic Photos / AFP
Lionel Messi var hetja Barcelona sem vann 2-1 sigur á Athletic Bilbao í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Allt stefndi í annað jafntefli Barcelona í röð í deildinni en liðið gerði óvænt 1-1 jafntefli við Sporting Gijon um síðustu helgi.

David Villa kom Barcelona yfir með marki strax á fjórðu mínútu leiksins en Andoni Iraola jafnaði metin með marki úr vítaspyrnu á 50. mínútu.

Vítið var dæmt eftir að Sergio Busquets braut á Fernando Llorente, sóknarmanni Athletic.

Börsungar vildu svo fá vítaspyrnu skömmu síðar þegar virtist brotið á Messi í teig Athletic en ekkert var dæmt þrátt fyrir kröftug mótmæli heimamanna.

Messi skoraði svo sigurmark leiksins á 78. mínútu af stuttu færi eftir sendingu Dani Alves sem hafði einnig lagt upp fyrra mark Börsunga í leiknum.

Með sigrinum komst Barcelona upp í 65 stig og endurheimti þar með fimm stiga forystu sína á Real Madrid sem er í öðru sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×