Innlent

Vilhjálmur: Golfið kemur ekki í stað vinnu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson telur að golfið geti nýst atvinnulausum þó að það komi ekki í stað atvinnu. Mynd/ Vilhelm.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson telur að golfið geti nýst atvinnulausum þó að það komi ekki í stað atvinnu. Mynd/ Vilhelm.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segist alls ekki vera þeirrar skoðunar að golfíþróttin geti komið í staðin fyrir atvinnu. Orð hans á borgarstjórnarfundi í dag um að stærri golfvöllur yrði mikilvægt tómstundasvæði fyrir atvinnulausa hafa vakið athygli, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

„Auðvitað veit ég að þetta kemur ekki í staðin fyrir atvinnu. En þetta er kannski til þess að auðvelda mönnum að ganga þá erfiðu braut sem atvinnuleysið getur reynst mönnum," segir Vilhjálmur. Hann bendir á að forystumenn golfhreyfingarinnar hafi nefnt það í blaðaviðtölum að þeir sem hafi orðið atvinnulausir síðasta sumar og hafi haft gaman af þessari íþrótt hafi nýtt sér hana til að stytta sér stundir. Þá bendir hann á að Þorleifur Gunnlaugsson, oddviti VG í borgarstjórn, hafi bent á það að það mætti bjóða atvinnulausum ókeypis í sund. Enginn hafi fett fingur út í það.

Samþykkt var í borgarstjórn í dag að verja 230 milljónum króna í nýjan golfvöll GR. Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn, hefur gagnrýnt málið harðlega. Hann segir það furðulega forgangsröðun meirihluta borgarstjórnar að verja öllum þessum peningum í nýjan golfvöll - mitt í öllum niðurskurðinum í fjármálum Reykjavíkurborgar. Meirihluti borgarstjórnar bendir hins vegar á að samningurinn um golfvöllinn hafi verið gerður fyrir síðustu kosningar, þegar Samfylkingin og VG voru í meirihluta. Það sé líka sérkennilegt að Samfylkingin og Dagur B. Eggertsson greiði atkvæði á sama fundi með nýju samkomulagi við önnur íþróttafélög eins og Fylki og Fjölni, en á móti samkomulagi við GR.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×