Innlent

Gosinu lokið í bili

„Það er engin kvika að koma upp og gosið er dottið niður. Tíminn verður að leiða í ljós hvort þetta sé endir gossins eða hlé. Við vitum það ekki," segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. Hann og Ómar Ragnarsson flugu yfir Eyjafjallajökul á fjórða tímanum í dag.

„Við vorum með hitamyndavél og tókum myndir af gígnum og hrauninu. Hitinn er hæstur tæpar hundrað gráður sem segir okkur að það eru engar kvikuslettur eða hraun að renna," segir Magnús Tumi.

Hann segir ótímabært að lýsa yfir endalokum eldgossins. „Það er hægt benda á að síðasta gos lág niðri langtímum saman og reif sig síðan upp aftur. Við verðum að sjá til hvað gerist," segir Magnús og bætir við að áfram verði fylgst með eldstöðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×