Viðskipti innlent

Fjármögnun er veikasti hlekkurinn

í gær Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra, Vilmos Budavari frá framkvæmdastjórn ESB og Timo Summa, yfirmaður sendinefndar ESB á Íslandi.Fréttablaðið/GVA
í gær Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra, Vilmos Budavari frá framkvæmdastjórn ESB og Timo Summa, yfirmaður sendinefndar ESB á Íslandi.Fréttablaðið/GVA

„Nærri 99 prósent íslenskra fyrirtækja falla undir skilgreininguna á litlum og meðalstórum fyrirtækjum," benti Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra á í ræðu sinni á fjármögnunarráðstefnu Evrópusambandsins (ESB) í Reykjavík í gærmorgun.

Á ráðstefnunni var kynnt átak ESB til að ýta undir lánveitingar til fyrirtækja þar sem starfsmenn eru færri en 250 talsins. Sambandið brúar þá bil vanti veð til þess að fyrirtækin teljist hæf til lántöku.

Katrín sagði fjölda tækifæra til staðar hér á landi og vísaði meðal annars til viðleitni stjórnvalda til að ýta undir nýsköpun, orkuiðnað og ferðamennsku. „Til að nýta þessi tækifæri verðum við að tryggja aðgang að fjármagni," sagði hún og vakti athygli á því að í samanburði þjóða, svo sem hjá Global Entrepreneurship Monitor, sé fjármögnun verkefna einmitt einn helsti veikleiki íslensks viðskiptaumhverfis.

Katrín kvaðst vonast til þess að ráðstefnan bæri ávöxt og hvatti fulltrúa íslenskra fjármálafyrirtækja, sem og smærri og meðalstórra fyrirtækja, til að kynna sér fjármögnunarleiðir sem opna mætti með tilstilli Evrópusambandsins. „Til staðar eru ónýtt tækifæri og ég vona að við getum hagnýtt þau öllum til hagsbóta." - óká








Fleiri fréttir

Sjá meira


×