Innlent

Kínverjar kanna Drekasvæðið

Kristján Már Unnarsson skrifar

Kínverska ríkisolíufélagið Sinopec, sem hefur víðtæka reynslu af olíuborun á miklu hafdýpi, hefur ákveðið að gera forkönnun á fyrirliggjandi gögnum um Drekasvæðið.

Sinopec er eitt stærsta olíufélag heims og er meðal annars í samstarfi við Geysi Green Energy um uppbyggingu hitaveitna í Kína. Í nýlokinni heimsókn Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra til Kína kom fram mikill áhugi Kínverja á auknu samstarfi við Íslendinga, ekki aðeins á sviði jarðhitanýtingar heldur einnig olíuleit.

Á fundi Katrínar með varaforseta kínverska olíurisans var rætt um rannsóknir tengdar mögulegri olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Í frétt frá iðnaðarráðuneyti kemur fram að Kínverjarnir hafi vísað til langrar reynslu Sinopec af jarðfræðirannsóknum og borunum á miklu dýpi í tengslum við olíuiðnað og að félagið myndi gera forkönnun á fyrirliggjandi gögnum um Drekasvæðið. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kínverjar sýna olíuleit þar áhuga því í aðdraganda Drekaútboðsins á síðasta ári sótti kínverska sendiráðið gögn um útboðið, að sögn Kristins Einarssonar hjá Orkustofnun. Iðnaðarráðherra hefur ákveðið að næsta olíuleitarútboð Íslendinga verði á næsta ári.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×