Fótbolti

Mourinho: Ég er ekki Harry Potter

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho, stjóri Real Madrid.
Jose Mourinho, stjóri Real Madrid. Nordic Photos / AFP

Jose Mourinho segir að stuðningsmenn Real Madrid megi ekki búast við of miklu af sér, enda sé hann enginn galdramaður.

„Sjáið til. Ég er þjálfari, ég er ekki Harry Potter," sagði hann í samtali við spænska blaðið AS. „Hann er töframaður. En í raunveruleikanum eru töfrar ekki til. Töfrar eiga heima í skáldskap og fótbolti í raunveruleikanum."

„Ég kom til Madrídar fyrir tveimur mánuðum og hef stýrt 40 æfingum. Veistu hversu margar æfingar við höfum átt allir saman, þar á meðal nýju leikmennirnir? Ekki einu sinni tíu. Ég endurtek - ekki tíu."

Hann segir að það taki tíma að breyta til hjá liðinu. „Það auðvelda fyrir mig hefði verið að halda áfram á sömu braut og spila eins og liðið gerði á síðasta tímabili. En það er ekki sú leið sem ég vil fara eftir."

Real Madrid gerði um helgina markalaust jafntefli við Mallorca í fyrstu umferð tímabilsins í spænsku úrvalsdeildinni. Mourinho hefur ekki miklar áhyggjur af því.

„Leikir svona snemma á tímabilinu eru alltaf mjög skrýtnir. Bayern tapaði um helgina, Inter gerði jafntefli, Juventus tapaði og Manchester United gerði jafntefli við Fulham."

„En ég get sagt eitt fyrir þá hjátrúarfullu. Ég byrjaði alltaf á jafntefli á þeim tímabilum sem ég var hjá Porto og Inter. Hjá Porto unnum við fjóra titla, hjá Inter tvo á fyrra tímabilinu og þrjá á því seinna."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×