Enski boltinn

Benitez: Þurfum að skora útivallarmark

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafa Benitez, stjóri Liverpool.
Rafa Benitez, stjóri Liverpool. Nordic Photos / Getty Images
Rafa Benitez, stjóri Liverpool, segir að það sé afar mikilvægt fyrir sína menn að skora útivallarmark í leiknum gegn Atletico Madrid í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld.

Þökk sé öskunnar úr Eyjafjallajökli sem lagði yfir meginland Evrópu þurftu leikmenn Liverpool að ferðast með rútu og lest langar leiðir áður en það tókst að fljúga með liðið frá Bordeaux í Frakklandi. Liðið lenti í Madríd um miðjan dag í gær.

Þetta er fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum keppninnar en Liverpool verður án Fernando Torres sem gekkst undir hnéaðgerð á sunnudaginn.

Benitez sagði lið Atletico vera sterkt og að þó svo að liðið hafi ekki staðið sig eins vel í deildinni í vetur og oft áður sé það alltaf öflugt í bikarkeppnum.

„Það hefur verið mikill munur á frammistöðu okkar á heimavelli og útivelli í keppninni til þessa," sagði Benitez. „Það verðum við að bæta nú. Við þurfum að skora og við erum nógu góðir til að eiga að geta unnið hvaða lið sem er. Það voru þó mikil vonbrigði að missa Fernando í báðum þessum leikjum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×