Innlent

Jón Stóri gæti krafið ríkið um skaða­bætur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón Hilmar Hallgrímsson gæti átt skaðabótakröfu á hendur ríkinu.
Jón Hilmar Hallgrímsson gæti átt skaðabótakröfu á hendur ríkinu.

Fari svo að rannsókn á máli gegn Jóni Hilmari Hallgrímssyni, eða Jóni Stóra, verði látið niður falla eða hann sýknaður af ákæru um ofbeldi gegn kúbverskum feðgum getur hann átt skaðabótakröfu á hendur íslenska ríkinu vegna ólögmætrar frelsissviptingar.

Jón hefur verið sakaður um að hafa beitt kúbversku feðgana hótunum og gengið berserksgang á heimili þeirra. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald og sat í einangrun vegna rannsóknar málsins. Hann hefur staðfastlega neitað sök, síðast í viðtali við Sölva Tryggvason á Skjáeinum í gærkvöld og telur handtökuna hafa verið ólögmæta.

Aðspurður um mögulegt skaðabótamál bendir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Jóns, á að lög um meðferð sakamála geri ráð fyrir því að einstaklingur sem hafi þurft að sæta gæsluvarðhaldi í máli sem hefur annaðhvort verið látið niður falla eða hann sýknaður af ákæru, geti sá hinn sami sótt skaðabætur til ríkisins. „En það er ekkert tímabært að tjá sig um það fyrr en endanleg niðurstaða er komin í sjálft sakamálið," segir Sveinn Andri um mál Jóns.

Sveinn Andri segir að þessi möguleiki sé á borðinu og bendir á að menn sem séu í fyrrnefndri stöðu fái gjafsókn frá ríkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×