Enski boltinn

Sérstakt kvöld fyrir Liverpool-strákinn Dani Pacheco á Anfield í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dani Pacheco.
Dani Pacheco. Mynd/Bongarts/Getty Images
Hinn 19 ára gamli Dani Pacheco var ánægður með framlag sitt í 1-0 sigri Liverpool á Unirea Urziceni í fyrri leik liðanna í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar á Anfield í gær.

Dani Pacheco kom inn á sem varamaður fyrir Alberto Aquilani í seinni hálfleik og lagði upp sigurmark David Ngog tíu mínútum fyrir leikslok þegar hann skallaði til hans fyrirgjöf frá Ryan Babel.

„Það var mikilvægt að vinna þennan leik og það að eiga þátt í sigurmarkinu gerði þetta að mjög sérstöku kvöldi fyrir mig," sagði Dani Pacheco í viðtali á heimasíðu Liverpool.

„Þetta var frábær fyrirgjöf frá Ryan og mér tókst að skalla boltann fyrir David sem skoraði. Það voru allir mjög ánægðir með þetta," sagði Pacheco.

„Þegar ég kom inn á völlinn þá sagði stjórinn mér að spila á svæðinu fyrir aftan framherjann. Ég fór síðan meira yfir á hægri kantinn og var bara ánægður með að gera mitt til þess að hjálpa liðinu," sagði Pacheco.

„Það er einstök upplifun að heyra stuðningsmennina syngja nafnið sitt og það var mjög skemmtileg stund fyrir fjölskyldu mína," sagði Dani Pacheco sem var ánægður með frammistöðu David Ngog.

„Það er allt annað en auðvelt að leysa Fernando Torres af sem er framherji í heimsklassa. David vinnur samt vel fyrir liðið og er að standa sig vel," sagði Pacheco sem kom til Liverpool úr unglingastarfi Barcelona árið 2007.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×