Viðskipti innlent

Leiðandi í netmarkaðsmálum

Kristján Már Hauksson Eigandi Nordic Emarketing.Markaðurinn/Anton
Kristján Már Hauksson Eigandi Nordic Emarketing.Markaðurinn/Anton

Íslenska netmarkaðsfyrirtækið Nordic Emarketing hefur skapað sér nafn víða um heim undanfarin ár þar sem það hefur verið leiðandi í markaðssetningu á vefnum.

Kristján Már Hauksson, eigandi fyrir­tækisins, hefur staðið lengi í þessum bransa, eða frá árinu 1997, en segir í samtali við Markaðinn að nánast óendanlegir möguleikar séu fyrir hendi.

Nordic Emarketing sérhæfir sig í að hjálpa fyrirtækjum um allan heim að koma sínum boðskap áleiðis til neytenda með markvissum hætti, þar á meðal með leitarvélabestun, þ.e. því að verða sem sýnilegust á leitarvélum.

„Það sem við sérhæfum okkur í er að hjálpa fólki við að marka sér heildstæða stefnu í markaðssetningu yfir netið og leitarvélabestun er bara hluti af því. Fyrir utan leitarvélar einbeitum við okkur að félagsmiðlunum, borðaauglýsingum, umfjöllunum á fagbloggum og þar fram eftir götunum."

Fyrirtækið hefur að undanförnu starfað með nokkrum af stærstu vörumerkjum heims, svo sem Puma, Siemens og Tesco-verslunarrisanum, og Kristján segir smæð Íslands og áherslu á erlend samskipti hjálpa mikið í þessum efnum.

„Okkar stærsti kúnnahópur er ekkert endilega fólk sem talar ensku, heldur eru erum við með sérþekkingu á margtyngdum mörkuðum, annað en breskir aðilar, til dæmis, sem hafa bara verið að horfa inn á við. Þegar þarlendir aðilar ætla svo að snúa sér að erlendum mörkuðum eru markaðsfyrirtækin í þeirra landi ekki eins fær og þess vegna koma viðskiptavinir til okkar og við erum að ná gríðarlega góðum árangri."

Ekki er hörgull á tækifærum í markaðsmálum á netinu og Nordic Emarketing hefur nóg að gera í spennandi bransa.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×