Sport

Bolt segist geta hlaupið 100 metrana á 9,40 sekúndum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Usain Bolt.
Usain Bolt. Mynd/Nordic Photos/Getty
Spretthlauparinn Usain Bolt er heimsmethafi í bæði 100 og 200 metra hlaupum og þessi eldfljóti Jamaíkumaður trúir því að hann geti bætt heimsmetin sín enn frekar á næstu árum.

Bolt segist geta hlaupið 100 metra hlaupið á 9.40 sekúndum og 200 metrana á betri tíma en 19,19 sekúndum sem er núverandi heimsmet hans. Heimsmet hans í 100 metra hlaupi er 9.58 sekúndur.

Usain Bolt var ekki áberandi á þessu ári þar sem að hann taldi best fyrir sig að hvíla skrokkinn eftir mikið álag árin á undan. Hann var að safna kröftum fyrir næstu tvö ár og segist þurfa að bæta tæknilegu hliðin hjá sér.

„Ég var í frábæru formi 2009 og ég hélt að ég myndi viðhalda því. Hlutirnir fara þó aldrei eins og maður býst við," sagði Usain Bolt í viðtali við franska blaðið L´Equipe.

„Aðalmarkmið mitt á næsta ári eða að verja heimsmeistaratitla mína í 100 og 200 metra hlaupum. Ég verð að vinna þar ef ég ætla að verða sú goðsögn sem ég vill verða," segir Bolt og hann er líka farinn að horfa til Ólympíuleikana í London.

„Það geta allir orðið Ólympíumeistarar en það eru mun færri sem geta unnið gull á tveimur leikum í röð. Það er markmiðið mitt," sagði Bolt sem vann 100 og 200 metra hlaupin á Ólympíuleikunum í Peking 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×