Enski boltinn

Mascherano sakar Liverpool um lygar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Javier Mascherano í búningi Barcelona.
Javier Mascherano í búningi Barcelona. Nordic Photos / AFP

Javier Mascherano hefur sakað forráðamenn Liverpool um að hafa logið til um ástæðurnar fyrir því að hann vildi fara frá félaginu og til Barcelopna.

Mascherano gekk í raðir Barcelona nú á dögunum fyrir 20 milljónir punda en hann vildi fá að fara síðasta sumar en fékk ekki.

Hann kom ekki við sögu í leik Liverpool gegn Manchester City í síðasta mánuði. Mascherano var þá sagður hafa neitað því að spila til að þvinga fram sölu sem hann vildi fá í gegn vegna óánægju fjölskyldu hans með lífið í Bretlandi.

Mascherano segir við The Guardian í dag að ástæðan fyrir því að hann vildi fara nú var að búið var að lofa honum því að hann mætti fara ef ásættanlegt tilboð bærist í hann.

„En þegar þeir fóru að blanda fjölskyldu minni í þessi mál og segja eitthvað út í loftið fannst mér það auðvitað mjög slæmt," sagði Mascherano.

„Þeir gáfu mér loforð fyrir ár síðan sem þeir stóðu aldrei við. Þetta hafði ekkert með fjölskyldu mína að gera. Þegar maður heyrir eða les lygar verður maður auðvitað reiður."

Hann hrósaði sínum gamla stjóra hjá Liverpool, Rafa Benitez, mjög. „Hann er einn af þeim þjálfurum sem hafa kennt mér hvað mest á ferlinum. Hann kenndi mér leikskipulag og ég er honum afar þakklátur."

Þegar Benitez keypti Mascherano frá West Ham var hann að spila með varaliði félagsins.

„Hann gaf mér tækifæri þegar engum öðrum datt í hug að leyfa mér að spila. Ég verð honum þakklátur alla mína ævi."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×