Sport

Kolb út fyrir tugthúsliminn Vick

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Vick í búningi Eagles.
Vick í búningi Eagles.

Eftir ansi langa fjarveru vegna vandamála utan vallar er einn hataðasti íþróttamaður Bandaríkjanna, Michael Vick, aftur orðinn byrjunarliðsmaður hjá NFL-liði í Bandaríkjunum.

Vick var dæmdur í fangelsi á sínum tíma þar sem hann ræktaði hunda sem síðan voru settir í hundaat sem hann stóð fyrir. Hundarnir máttu þess utan þola miklar pyntingar og voru meðal annars teknir af lífi á grimmilegan hátt.

Vick varð gjaldþrota er hann fór í fangelsið. Hann var einnig settur í bann af NFL-deildinni. Hann fékk keppnisleyfið sitt aftur í fyrra og gekk þá í raðir Philadelphia Eagles.

Hann fékk sama og ekkert að spila í fyrra en er orðinn aðalleikstjórnandi liðsins eftir að hafa spilað vel í fjarveru Kevin Kolb sem byrjaði sem aðalleikstjórnandi Eagles í vetur.

Andy Reid, þjálfari liðsins, hefur því ákveðið að gera Vick að aðalleikstjórnanda liðsins en Vick er af flestum talinn einn hæfileikaríkasti leikmaður deildarinnar frá upphafi.

"Ég er upp með mér að hafa fengið stöðuna. Ég vil bara spila og vinna leiki," sagði Vick.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×