Innlent

Forstjóri Magma hótaði tímariti vegna ummæla Bjarkar

Ross Beaty er forstjóri Magma Energy sem á meirihluta í HS Orku
Ross Beaty er forstjóri Magma Energy sem á meirihluta í HS Orku
Ross Beaty, forstjóri Magma Energy, hótaði kanadísku tímariti fyrir að birta ummæli Bjarkar Guðmundsdóttur tónlistarkonu þar sem hún sagðist telja að fyrirtæki í eigu Beaty hefðu orð á sér fyrir að brjóta lög um mannréttindi og samninga verkalýðsfélaga í Suður-Afriku.

Eftir að viðtalið birtist á vef Macleans hafði Ross Beaty samband við blaðið og krafðist leiðréttingar á þessari staðhæfingu Bjarkar, ella myndi hann draga blaðið fyrir dómstóla vegna meiðyrða.

Blaðamaður Macleans, Tom Henheffer, sem tók viðtalið við Björk, valdi þann kost að birta leiðréttingu á vefsíðu blaðsins þann 12. nóvember þar sem segir:

„Þann 9. nóvember var birt viðtal við Björk á vefsíðunni þar sem hún heldur því fram að Ross Beaty og Magma Energy Corp. hafi brotið lög í Suður-Ameríku. Þetta er ekki rétt og við biðjum Ross Beaty og fyrirtæki hans afsökunar."

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuaudlindir.is sem starfað hafa náið með Björk Guðmundsdóttir og hvöttu stjórnvöld til að koma í veg fyrir söluna á HS Orku.

Í viðtalinu var haft eftir Björk:

„Slæmt orðspor fer af fyrirtækjum í eigu Ross Beaty þar sem þau brjóta á mannréttindum og samningum verkalýðsfélaga í Suður-Ameríku."

Í tilkynningu frá Orkuaudlindir.is segir um þessi ummæli: „Björk nefnir ekki Magma Energy Corporation í þessu samhengi, enda er það fyrirtæki Ross Beaty, Pan America Silver, sem hún vísar til."

Viðtalið við Björk sem og leiðrétting Mcleans hafa verið fjarlægð af vef blaðsins.

Tengill:

Tímaritið Mclean










Fleiri fréttir

Sjá meira


×