Viðskipti innlent

Niðurstöðu að vænta í janúar

Hagkaup Hagar er verslunarfyrirtæki sem á Hagkaup, Bónus, Útilíf og fleiri verslanir, auk innkaupafyrirtækja. Fréttablaðið/Vilhelm
Hagkaup Hagar er verslunarfyrirtæki sem á Hagkaup, Bónus, Útilíf og fleiri verslanir, auk innkaupafyrirtækja. Fréttablaðið/Vilhelm

Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka á enn í viðræðum við valda fjárfesta vegna sölunnar á kjölfestuhlut í Högum. Iða Brá Benediktsdóttir, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka, segir að gera megi ráð fyrir að viðræðurnar standi til loka janúar.

Formlegt söluferli Haga hófst 18. október síðastliðinn, en í fyrsta hluta þess var boðinn til sölu 15 til 29 prósenta kjölfestuhlutur í fyrir­tækinu. Um miðjan nóvember höfðu tíu fjárfestar skilað inn tilboðum og í desember segir Iða að valið hafi verið úr þeim hópi til áframhaldandi viðræðna. Ekki hefur verið gefið upp við hversu marga er rætt. Í fyrsta hluta söluferlisins er fjárfestum jafnframt gefinn kostur á að leggja fram tilboð í allan hlut bankans í högum, sem nemur 99,5 prósentum af útistandandi hlutum í félaginu.

Í sölulýsingu Arion banka frá því í október kemur fram að áformað sé að taka hlutabréf í Högum til viðskipta í Kauphöll Íslands (Nasdaq OMX Iceland), en að fagfjárfestum og almenningi bjóðist að kaupa hluti í félaginu í aðdraganda þeirrar skráningar. - óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×