Innlent

Folöld enn veik af hóstaveiki

Folöld Matvælastofnun ítrekar að hestaeigendur hugsi vel um hross sín í vetur.
Folöld Matvælastofnun ítrekar að hestaeigendur hugsi vel um hross sín í vetur.

Folöld hafa reynst afar móttækileg fyrir sýkingu af völdum smitandi hósta í sumar og haust.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Matvælastofnunar. Þar segir enn fremur að í mörgum tilfellum virðist folöldin hafa góða vörn gegn sjúkdómnum fyrstu tvo mánuðina eftir fæðingu, sem líklega megi rekja til mótefna sem þau fái með broddmjólkinni. Að þeim tíma liðnum standi þau berskjölduð gegn sýkingunni.

„Alla jafna komast folöldin yfir sýkinguna af eigin rammleik en það getur tekið drjúgan tíma þar til þau verða alveg einkennalaus. Allmörgum hefur verið hjálpað með pensilíngjöf og á hún alltaf rétt á sér ef folöld eru komin með hita eða önnur alvarleg einkenni.“

Alls hafa sautján folöld verið krufin á Tilraunastöðinni á Keldum. Í fimm tilfellum mátti rekja dauða folaldanna til streptókokka­sýkingar í lungum og þrjú önnur dauðsföll tengjast mögulega sýkingunni. Hin folöldin, níu talsins, hafa drepist af öðrum orsökum.

- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×