Erlent

Dregið verði úr áhættunni

Wolfgang Schäuble Fjármálaráðherra Þýskalands svarar spurningum fréttamanna að loknum fundinum í Brussel.
nordicphotos/AFP
Wolfgang Schäuble Fjármálaráðherra Þýskalands svarar spurningum fréttamanna að loknum fundinum í Brussel. nordicphotos/AFP

Efnahagsráðherrar Evrópusambandsríkjanna samþykktu í gær á fundi sínum í Brussel reglur um hert eftirlit með vogunarsjóðum og öðrum áhættufjárfestingum.

Samþykktin þykir sýna eindreginn áhuga Evrópu­sambandsríkjanna á því að setja frekari hömlur á fjármálaviðskipti til að koma í veg fyrir að áhættuviðskipti leiði af sér efnahagshrun á borð við það sem varð haustið 2008.

Reglurnar gera framkvæmdastjórum vogunar- og fjárfestingasjóða að skrá sig hjá eftirlitsstofnunum og veita upplýsingar um viðskipti sín. Einnig verður þeim gert að leggja til hliðar fé til að verjast áföllum, með svipuðum hætti og bönkum er gert að gera.

Einnig verður þeim ekki sjálfkrafa heimilt að stunda viðskipti utan Evrópusambandsins. Þetta ákvæði eiga Bandaríkjamenn erfitt með að sætta sig við, og hefur Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, meðal annars sagt hættu á því að bandarískir sjóðir verði útilokaðir frá Evrópusambandinu.

Endanleg afgreiðsla nýju reglnanna verður þó ekki fyrr en í júlí, en fram að þeim tíma þurfa aðildarríkin að samræma þær reglur sem ráðherraráðið samþykkti í gær og sambærilegar reglur sem Evrópuþingið hefur samþykkt. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×