Enski boltinn

Liverpool-liðið eltir uppi opna flugvelli suður eftir Evrópu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool-liðið minnist hér Hillsborough-slysins.
Liverpool-liðið minnist hér Hillsborough-slysins. MyndAP
Rafael Benitez, stjóri Liverpool, er allt annað en ánægður með að UEFA hafi skikkað Liverpool-liðið til að ná Evrópudeildarleiknum á móti Atletico Madrid á fimmtudaginn þrátt fyrir flug lægi niðri í Evrópu út af öskufallinu frá Eyjafjallajökli.

„Undir þessum sérstöku kringumstæðum hefði verið meira vit í því að fresta leiknum en við verðum bara að leggja í hann," sagði Rafael Benitez við BBC. Liverpool endurmetur stöðuna á hverjum klukkutíma en liðið þarf líka að komast til baka fyrir deildarleik á móti Burnley á sunnudag.

Eins og staðan er núna mun liðið ferðast með lest til París og gista þar í eina nótt. Ef verður búið að opna fyrir flug frá París mun liðið fljúga til Madrid en ef allt verður enn lokað þá tekur liðið lest suður til Bordeaux og flýgur síðan þaðan yfir til Madrid.

„Við munum byrja á því að fara til London og sjá þá hvort verði búið að opna fyrir flug. Við metum stöðuna á hverjum klukkutíma og það eru nokkrir kostir í stöðunni," sagði Rafael Benitez en Liverpool treystir enn á það að liðið geti í það minnsta flogið aftur heim.

Rafael Benitez talaði líka um að ástandið minnti hann á gamla daga í boltanum.

„Þegar ég var að spila þá var það alvanalegt að við ferðuðumst í 12 til 14 tíma í rútu. Í dag búast allir hinsvegar við meiri þægindum," sagði Rafael Benitez sem lék á sínum tíma með ýmsum liðum í B og C-deildunum á Spáni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×