Innlent

Sóðaskapur á Fimmvörðuhálsi

SB skrifar
Ótrúlegur sóðaskapur. Olíutunnan við Fimmvörðuskála.
Ótrúlegur sóðaskapur. Olíutunnan við Fimmvörðuskála. Mynd/Páll Ásgeir
Hálffull olíutunna mætti augum göngugarpsins Páls Ásgeirs Ásgeirssonar þegar hann gekk yfir Fimmvörðuháls í dag. Páll Ásgeir segir mengunarslys í uppsiglingu og lýsir vanþóknun á slíkum sóðaskap.

Páll Ásgeir er einn þekktasti útivistarblaðamaður landsins og hefur skrifað fjölda bóka um göngur og gönguleiðir. Í pistli á bloggsíðu sinni segist hann hafa lagst í rannsóknarleiðangur á Fimmvörðuháls til að sjá með eigin augum ástandið á gönguleiðinni.

„Á stórum svæðum á hálsinum liggur lagið yfir snjó og þar hefur orðið til undarlegt mynstur ótal smágíga sem gefa umhverfinu sérstæðan blæ," skrifar Páll og birtir með pistli sínum ótrúlegar myndir úr ferðinni.

Ótrúleg form í öskulaginu. Páll Ásgeir á Fimmvörðuhálsi.Mynd/Páll Ásgeir

En ekki var allt jafn fallegt. Rétt neðan við Fimmvörðuskála tók Páll eftir ótrúlegum sóðaskap.

„Ég varð hinsvegar dálítið dapur þegar ég rakst á 200 lítra olíutunnu við gönguleiðina rétt neðan við Fimmvörðuskála. Hún er næstum full af hráolíu og það vantar í hana tappann," skrifar Páll.

Hann segir að þeir sem skildu tunnuna eftir ættu að sjá sóma sinn í að hirða hana áður en slys verður.

„Þarna er mengunarslys í uppsiglingu og erfitt að finna nógu sterk orð til að lýsa vanþóknun sinni á slíkum sóðaskap og hirðuleysi að ekki sé minnst á algert virðingarleysi fyrir náttúrunni."

Pistil Páls Ásgeirs má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×