Fótbolti

Torres með tvö og fær að mæta Atletico Madrid

Elvar Geir Magnússon skrifar
Fernando Torres í baráttunni í kvöld.
Fernando Torres í baráttunni í kvöld.

Liverpool er komið áfram í undanúrslit Evrópudeildarinnar en liðið vann seinni leikinn gegn Benfica 4-1 á Anfield í kvöld.

Fernando Torres skoraði tvívegis fyrir Liverpool og mætir sínu fyrrum félagi, Atletico Madrid, í undanúrslitum keppninnar.

Benfica vann fyrri leikinn í Portúgal 2-1 en Liverpool réði ferðinni í kvöld. Dirk Kuyt og Lucas Leiva hafa mátt þola mikla gagnrýni en þeir sáu um að skora mörkin tvö í fyrri hálfleik.

Torres skoraði svo á 59. mínútu en gestirnir minnkuðu muninn tíu mínútum síðar. Þá var spenna hlaupin í leikinn enda ljóst að portúgalska liðið þyrfti aðeins eitt mark í viðbót til að komast áfram á útivallarmörkum.

En Torres var ekki búinn að segja sitt síðasta orð. Hann gerði út um einvígið á 82. mínútu og úrslitin 4-1, samtals 5-3 sigur Liverpool. Atletico Madrid og Valencia gerðu á sama tíma markalaust jafntefli en þar sem fyrri leikurinn fór 2-2 kemst Atletico áfram á útivallarmörkum.

Fulham fer einnig áfram eftir 1-0 útisigur gegn Wolfsburg þar sem Bobby Zamora skoraði eina markið strax á fyrstu mínútu leiksins. Fulham vann einvígið samtals 3-1 og mætir Hamburg í undanúrslitum. Hamburg vann 3-1 útisigur gegn Standard Liege, samtals 5-2 sigur í einvíginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×