Fótbolti

Mourinho orðaður við Real Madrid

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Inter.
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Inter. Nordic Photos / AFP
Jose Mourinho hefur verið orðaður við stjórastöðuna hjá Real Madrid en sjálfur segir hann langlíklegast að hann verið áfram við stjórnvölinn hjá Inter á Ítalíu.

Mourinho stýrði Inter til sigurs í ítölsku úrvalsdeildinni nú í vor á sínu fyrsta tímabili með liðinu. Þetta var þó í fjórða sinn í röð sem Inter verður Ítalíumeistari.

Florentino Perez er líklegastur til að verða forseti Real Madrid í sumar og hann er sagður hafa sett sig í samband við Mourinho og kannað hug hans.

Spænska blaðið As segir að Mourinho sé reiðubúinn að skoða tilboð Perez ef skilyrðum hans sé mætt að fullu. Hann vill fá fulla stjórn á liðinu og reglulega fundi með Perez út af leikmannakaupum. Þá vill hann að Real Madrid jafni boð Inter sem er sagt reiðubúið að borga honum tíu milljónir evra á ári til að vera með liðið í eitt ár í viðbót.

Þar að auki mun Mourinho hafa krafist þess að laun hans verði hækkuð ef leikmaður verður launahærri en hann.

Ítalskir fjölmiðlar halda þó sumir fram að Mourinho sé þegar búinn að taka boði Massimo Moratti, forseta Inter, um að stýra liðinu í eitt ár til viðbótar og þiggja fyrir það tíu milljóna evra í árslaun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×