Fótbolti

Given bjargaði City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Shay Given, markvörður Manchester City.
Shay Given, markvörður Manchester City. Nordic Photos / Getty Images

Shay Given var hetja Manchester City sem komst naumlega áfram í fjórðungsúrslit UEFA-bikarkeppninnar í kvöld.

City mætti danska liðinu Álaborg í kvöld og var í góðri stöðu eftir 2-0 sigur á heimavelli fyrir hálfum mánuði síðan.

Staðan var lengi vel markalaus í kvöld en Jamaíkumaðurinn Luton Shelton kom liði Álaborgar yfir á 86. mínútu leiksins.

En Danirnir neituðu að láta staðar numið þá og uppskáru vítaspyrnu er Ched Evans handlék knöttin innan teigs. Michael Jakobsen skoraði örugglega úr vítaspyrnunni og tryggði sínum mönnum framlengingu.

Ekkert var skorað í framlengingunni og þurfti því að grípa til vítaspyrnukeppni. Skemmst er frá því að segja að leikmenn City nýttu allar sýnar spyrnur en markvörður liðsins, Shay Given, varði tvívegis frá leikmönnum Álaborgar. Fyrst frá Thomas Augustinussen og svo frá markaskoraranum Shelton.

Má segja að þar með hafi réttlætinu verið fullnægt en boltinn fór í höndina á Shelton þegar hann kom Álaborg yfir í leiknum.

City getur þó fyrst og fremst sjálfum sér um kennt hvernig fór þar sem leikmenn liðsins slökuðu fullmikið á á lokakafla leiksins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×