Fótbolti

Tvö Íslendingalið áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnór Smárason, leikmaður Heerenveen.
Arnór Smárason, leikmaður Heerenveen. Nordic Photos / AFP

Fjölmargir Íslendingar voru í eldlínunni með liðum sínum í Evrópudeildinni í knatttspyrnu í kvöld. Tvö Íslendingalið komust áfram.

Hollensku liðin Heerenveen og Twente komust áfram í næstu umferð. Heerenveen gerði markalaust jafntefli við PAOK frá Grikklandi en fyrri leik liðanna lauk með 1-1 jafntefli í Grikklandi. Heerenveen komst því áfram á útivallarmarkinu.

Arnór Smárason er meiddur og lék því ekki með liðinu. Það kom reyndar fram á heimasíðu félagsins í kvöld að hann mun gangast undir aðgerð vegna meiðsla sinna í næstu viku og verður frá vegna þess næstu 6-8 vikurnar að minnsta kosti.

Twente, lið Bjarna Þórs Viðarssonar, vann 3-1 samanlagðan sigur á Karabakh frá Aserbaídsjan. Bjarni Þór var ekki í leikmannahópi Twente.

Helgi Valur Daníelsson var í byrjunarliði Elfsborg sem vann 1-0 sigur á Lazio í kvöld. Lazio vann þó samanlagðan 3-1 sigur og komst því áfram.

Eggert Gunnþór Jónsson var ekki í leikmannahópi Hearts sem vann 2-0 sigur á Dinamo Zagreb sem komst áfram þökk sé 4-0 sigri í fyrri leik liðanna.

Stefán Gíslason lagði upp mark Bröndby í 3-1 tapi liðsins fyrir Herthu Berlín í kvöld. Hertha Berlín komst áfram, 4-3 samanlagt.

Rúrik Gíslason var í liði Odense sem gerði 1-1 jafntefli við Genoa í kvöld. Genoa komst áfram á 4-2 samanlögðum sigri.

Þá töpuðu Noregsmeistarar Stabæk stórt fyrir Valencia á útivelli í kvöld, 4-1, og samanlagt 7-1. Pálmi Rafn Pálmason var á bekknum hjá Stabæk.

Þá tapaði Aktobe frá Kasakstan fyrir Werder Bremen, 2-0 í kvöld og 8-3 samanlagt. Aktobe sló út FH í forkeppni Meistaradeildarinnar í sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×