Viðskipti innlent

Vísbendingar um hagkerfið í rusli

Losun á úrgangi frá fyrirtækjum dróst saman um 40 prósent í janúar.
Losun á úrgangi frá fyrirtækjum dróst saman um 40 prósent í janúar. Mynd/Vilhelm

„Ruslið er mælikvarði á gang efnahagslífsins," segir Björn Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu. Losun úrgangs hefur dregist samfellt saman frá því efnahagslífið fór á hliðina hér í október í fyrra. Verulega dró úr sorplosun frá fyrirtækjum í janúar, eða um fjörutíu prósent. Heimilin hentu allt að fimmtán prósentum minna í byrjun árs en í fyrra.

Hagnaður Sorpu nam 4,2 milljónum króna í fyrra samanborið við 161 milljón króna í hittiðfyrra. Rekstrartekjur námu rétt rúmum tveimur milljörðum króna sem er 2,1 prósenta hækkun á milli ára. Á móti jukust rekstrargjöld um sex prósent en þau námu 1,8 milljörðum.

Björn sagði í samtali við Markaðinn í enda ágúst í fyrra nokkuð hafa dregið úr losun úrgangs frá fyrirtækjum á fyrstu sjö mánuðum ársins. Sérstaklega væri að draga úr sorplosun fyrirtækja í bygginga- og iðnaðargeiranum. Blikur væri á lofti enda sorplosun vísbending um hvert stefni í hagkerfinu.

Spáin gekk eftir og gott betur.

Björn segir nú samdrátt í sorplosun fyrirtækja merki um að atvinnulífið sé botnfrosið. Á sama tíma hafi losun á sorpi frá heimilum dregist saman um tíu til fimmtán prósent. Það sé eðlilegt því umfang dagblaða hafi minnkað og því fari minna í tunnuna hjá þeim sem ekki flokka ruslið.

Björn segir erfitt að greina hvert stefni í efnahagsmálum út frá sorplosun í dag. Ekki hafi verið rýnt í ruslið og það greint eftir efnisflokkum. Þó megi reikna með að fólk hendi færri raftækjum á næstunni. „Þetta fer þó allt eftir því hvernig atvinnulífið þróast," segir hann. - jab








Fleiri fréttir

Sjá meira


×