Formúla 1

Button heimsmeistari í Formúlu 1

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jenson Button fagnar heimsmeistaratitlinum í dag.
Jenson Button fagnar heimsmeistaratitlinum í dag. Nordic Photos / AFP

Bretinn Jenson Button tryggði sér í dag í heimsmeistaratitil ökuþóra í Formúlu 1-mótaröðinni er hann varð í fimmta sæti í brasilíska kappakstrinum.

Það var Mark Webber á Red Bull sem fagnaði sínum fyrsta sigri á tímabilinu er hann kom fyrstur í mark í dag. Robert Kubica varð annar, Lewis Hamilton þriðji og Sebastian Vettel fjórði.

Button var fjórtándi á ráslínu en náði með frábærri frammistöðu að vinna sig upp í fimmta sætið.

Hans helsti keppinautur um heimsmeistaratitilinn og félagi hans hjá Brawn GP, Rubens Barrichello, lenti í vandræðum seint í keppninni og datt niður í áttunda sætið.

Vettel átti einnig mjög góða keppni en hann var enn aftar í rásröðinni en Button. Hann kom sér upp í annað sæti stigakeppni ökuþóra með stigin sem hann hlaut fyrir fjórða sætið.

Button er með 89 stig þegar einni keppni er ólokið, Vettel 74 og Barrichello 72.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×