Sport

Maðurinn í miðju Semenya-málsins heldur starfi sínu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leonard Chuene.
Leonard Chuene. Nordic Photos / Getty Images

Leonard Chuene, formaður frjálsíþróttasambands Suður-Afríku, heldur starfi sínu þrátt fyrir að hann hafi verið harkalega gagnrýndur fyrir störf sín.

Caster Semenya mun hafa gengist undir kynjapróf áður en hún hélt á heimsmeistaramótið í Berlín í sumar þar sem hún bar sigur úr býtum í 800 metra hlaupi kvenna.

Chuene neitaði því fyrst að hann hafi vitað af þessu en viðurkenndi síðar að það hafi ekki verið rétt. Hann vissi vel af kynjaprófinu.

Engu að síður var ákveðið að senda Semenya til þátttöku í Berlín. Skömmu fyrir úrslitahlaupið í greininni tilkynnti Alþjóða frjálsíþróttasambandið að Semenya yrði leyft að keppa en að hún þyrfti síðan að gangast undir kynjapróf.

Niðurstöður prófsins hafa ekki enn verið tilkynntar en fjölmiðlar hafa greint frá því að prófið hafi leitt í ljós að Semenya sé tvíkynja.

Stjórn frjálsíþróttasambandsins fundaði í gær og sendi svo frá sér stuttorða tilkynningu þar sem hún lýsti yfir stuðningi sínum við forráðamenn sambandsins.

Málið hefur vakið hörð viðbrögð í Suður-Afríku og margir stjórnmálamenn hafa kallað eftir því að Chuene verði látinn sæta ábyrgð í málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×