Menning

Kreppa stöðvar Grammy-fara

Þröstur Ólafsson framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands verður ekki viðstaddur Grammy-verðlaunahátíðina í Los Angeles.
Þröstur Ólafsson framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands verður ekki viðstaddur Grammy-verðlaunahátíðina í Los Angeles.
„Það er mjög dýrt að fara þangað og taka þátt í þessu. Við búum ekki við þannig ástandi hér að við getum leyft okkur neinn munað," segir Þröstur Ólafsson, framkvæmdastjóri Sinfóníusveitarinnar.

Þrátt fyrir að Íslendingar séu tilnefndir til tvennra Grammy-verðlauna í ár verða þeir ekki viðstaddir athöfnina í Los Angeles á sunnudaginn. Annars vegar er Sinfóníuhljómsveit Íslands og hljómsveitarstjórinn Rumon Gamba tilnefnd fyrir plötuna D"Indy: Orchestral, Vol 1 og hins vegar er Pacifia-kvartettinn, með Sigurbjörn Bernharðsson fiðluleikara innanborðs, tilnefndur fyrir kammermúsík sína. „Þetta hleypur á mörgum milljónum," segir Þröstur og útskýrir að einungis einn hefði verið sendur á hátíðina ef einhver peningur hefði verði til.

Þröstur býst ekki við því að hljóta hin virtu verðlaun. „Það er mikið þrengri hópur sem velur lokaverðlaunin, þannig að það er á vissan hátt meira að marka tilnefninguna. Þetta hefur líka oft komið í hlut bandarískra hljómsveita enda eru þetta bandarísk verðlaun."

Fái hljómsveitin Grammy-styttuna myndi það breyta miklu fyrir hana út á við að mati Þrastar. „Ég veit ekki hvernig það yrði metið innanlands. Íslendingar eru ekkert ofboðslega mikið fyrir klassík. Þeir eru allir í poppinu eins og maður sér á umfjöllun fjölmiðla og annað. En við vonum að þetta gangi okkur í hag."

Sigurbjörn Bernharðsson ætlaði að vera viðstaddur hátíðina ásamt hinum meðlimum Pacifia -kvartettsins en hljómsveitin spilar í Lissabon kvöldið áður og kemst því ekki í tæka tíð til Los Angeles. Miðað við tvær millilendingar í Senegal og Atlanta vantar aðeins þrjár klukkustundir upp á að dæmið gangi upp. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.