Viðskipti innlent

Krónan féll um þrjú prósent - aldrei veikari

Gengi krónunnar féll um þrjú prósent í dag og fór gengisvísitalan í hæstu hæðir. Gjalddagar krónubréfa á næstu tveimur mánuðum kunna að skýra fallið, sem hleypur á sex prósentum síðastliðna tvo viðskiptadaga, segir Þorbjörn Atli Sveinsson, sérfræðingur hjá greiningardeild Kaupþings.

Krónubréf upp á 45 milljarða króna eru á gjalddaga í næsta mánuði og er hugsanlegt að menn hafi verið að loka þeim nú. Megi því ætla að fjárfestar séu almennt meðvitaður um gjalddagana og haldi að sér höndum á meðan óvissa er með framgang útgáfunnar. Þá séu þeir hættir að taka stöðu með krónunni. Erfiðar aðstæður á gjaldeyrismarkaði skýri fall krónunnar þar sem engir vextir fyrir krónur séu lengur í boði, segir Þorbjörn.

Gengisvísitalan endaði í 181,4 stigum og hefur aldrei verið hærri.

Bandaríkjadalur kostar nú 94,3 krónur og hefur ekki verið dýrari í sex ár. Á sama tíma hafa aðrir gjaldmiðlar ekki verið dýrari.

Ein evra kostar nú 139,2 krónur, eitt breskt pund 175,9 krónur og ein dönsk króna 18,6 krónur.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×