Viðskipti innlent

Bakkavör tók flugið

Lýður og Ágúst Guðmundssynir, stofnendur Bakkavarar. Gengi bréfa í félagi þeirra hækkaði í dag eftir snarpa lækkun í byrjun mánaðar.
Lýður og Ágúst Guðmundssynir, stofnendur Bakkavarar. Gengi bréfa í félagi þeirra hækkaði í dag eftir snarpa lækkun í byrjun mánaðar. Mynd/GVA

Gengi bréfa í Bakkavör hækkaði um 3,63 prósent í Kauphöllinni í dag og er það mesta hækkun dagsins. Gengi bréfa í fyrirtækinu tók snarpa dýfu í enda aprílmánaðar og féll um rúmar 10 krónur á hlut fram á mánudag í þessari viku.

Gengið stóð í 41,9 krónum á hlut 28. apríl en fór í 31,5 krónu sem jafngildir 24 prósenta falli. Það stóð í enda viðskiptadagsins í dag í 32,8 krónum og hefur sem því nemur hækkað um 4,1 prósent frá vikubyrjun.

Þá hækkaði gengi bréfa í Glitni um 1,47 prósent, í Century Aluminum um 1,32 prósent og í Marel um 1,3 prósent. Gengi bréfa í Alfesca, SPRON og FL Group hækkaði um minna en eitt prósent.

Á sama tíma féll gengi bréfa í færeyska olíuleitarfélaginu Atlantic Petroleum um 3,75 prósent og í Landsbankanum um 2,63 prósent. Gengi bréfa í Atlantic Airways, Færeyjabanka, Icelandair, Teymi og Kaupþingi lækkaði hins vegar um meira en eitt prósent. Lækkun annarra félaga var undir einu prósenti.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,66 prósent og stendur hún í 4.798 stigum. Hún hefur ekki verið lægri síðan síðasta viðskiptadag fyrir páska en 19. mars síðastliðinn endaði hún í 4.564 stigum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×