Fótbolti

Brann féll úr leik í vítaspyrnukeppni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Örn í baráttunni í kvöld.
Ólafur Örn í baráttunni í kvöld. Nordic Photos / AFP

Brann hlaut þau grimmu örlög í kvöld að falla úr leik í vítaspyrnukeppni í UEFA-bikarkeppninni gegn Deportivo La Coruna á Spáni.

Brann vann fyrri viðureignina í Noregi, 2-0, og átti því ágæta möguleika á að komast áfram í riðlakeppninna.

Diego Colotto kom Spánverjunum yfir strax á átjándu mínútu en eftir hálftímaleik missti Deportivo mann af velli með rautt spjald á bakinu. Útlitið var því nokkuð gott fyrir Brann.

Colotto náði hins vegar að skora öðru sinni á 76. mínútu og varð því að framlengja leikinn. Ekkert mark var skorað í framlengingunni og varð því að grípa til vítaspyrnukeppni.

Ólafur Örn Bjarnason, vítaskytta Brann, skoraði úr fyrstu spyrnunni en næstu tvær spyrnur norska liðsins voru misnotaðar, sem og ein hjá Deportivo.

Staðan var 3-2 í vítaspyrnukeppninni, Spánverjum í vil, þegar Brann átti eina spyrnu eftir en Deportivo eina. Erlend Hanstveit brenndi hins vegar af sinni spyrnu og þar við sat.

Ólafur Örn og Kristján Örn Sigurðsson léku allan leikinn fyrir Brann í kvöld. Gylfi Einarsson og Ármann Smári Björnsson voru einnig í byrjunarliðinu en Gylfi var tekinn af velli í hálfleik og Ármann Smári á 71. mínútu. Birkir Már Sævarsson kom inn á sem varamaður á 80. mínútu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×