Viðskipti innlent

Bréf Eimskips sett á athugunarlista Kauphallarinnar

Sindri Sindrason, stjórnarformaður Eimskips.
Sindri Sindrason, stjórnarformaður Eimskips.
Hlutabréf í Eimskipafélaginu hafa verið færð á athugunarlista í Kauphöllinni. Þetta er gert í tengslum við skilyrði Kauphallarinnar fyrir töku hlutabréfa til viðskipta, vegna umtalsverðrar óvissu varðandi verðmyndun vegna hættu á ójafnræði meðal fjárfesta, líkt og segir í tilkynningu.

Gengi hlutabréfa í Eimskip féll um 16,5 prósent í gær án nokkurrar ástæðu. Hugsanlegt er að ekki hafi tekist að fjármagna kaup á XL Leisure Group en Eimskip er enn í ábyrgð fyrir 280 milljóna dala láni félagsins.

Eimskip seldi XL Leisure Group í október árið 2006 fyrir 450 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði 30,6 milljarða íslenskra króna á þávirði. Félagið var þá leiguflugs- og ferðaþjónustuhluta Avion Group, nú Eimskipafélagsins.

XL Leisure er þriðja stærsta fyrirtæki í Bretlandi á sviði ferðaþjónustu. Fyrirtækið tapaði 24 milljónum punda á síðasta rekstrarári, en það jafngildir um 3,6 milljörðum íslenskra króna. Skuldir félagsins fóru úr 17 milljörðum í 31 milljarð íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×