Viðskipti erlent

Mánudagsmæða á öllum hlutabréfamörkuðum

Indverskur verðbréfamiðlari á slæmum degi.
Indverskur verðbréfamiðlari á slæmum degi. Mynd/AFP

Gengi hlutabréfa hefur lækkað á mörkuðum í Asíu og í Evrópu í dag. Fjárfestar í Asíu hafa vaxandi áhyggjur af stöðu efnahagsmála í Bandaríkjunum sem geti haft áhrif á helstu viðskiptalönd, sérstaklega í Asíu.

Nikkei-vísitalan lækkaði um 1,96 prósent í morgun. Vísitalan stendur í 12.532,1 stigi sem er sama sylla og hún stóð á í september árið 2005. Þá féll Hang Seng-vísitalan í Hong Kong um 1,5 prósent og Sensex-vísitalan um 3,2 prósent.

Hlutabréfavísitölur hafa sömuleiðis lækkað nokkuð á sama tíma. FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur lækkað um 0,31 prósent, hin franska Cac-40 um 0,5 prósent og Dax-vísitalan í Þýskalandi um 0,38 prósent.

Þá hefur samnorræna hlutabréfavísitalan OMXN40 lækkað um 1,38 prósent það sem af er dags. Af einstökum mörkuðum hefur C20-vísitalan í kauphöllinni í Kaupmannahöfn lækkað um 1,41 prósent og hlutabréfavísitalan í Helsinki í Finnlandi lækkað um 1,22 prósent.

Viðskipti hefjast í Kauphöll Íslands eftir um stundarfjórðung.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×